Fara á efnissvæði
Fréttir

Greiðsluhraði krafna árið 2023

31. janúar 2024
Greiðsluhraði krafna árið 2023
Greiðsluhraði krafna árið 2023

Inkasso-Momentum hefur undanfarin ár mælt greiðsluhraða krafna. 

Greiðsluhraði krafna er mæling á hlutfalli þeirra krafna sem greiðast á eindaga. Hann gefur innsýn í getu einstaklinga og fyrirtækja til að standa við skuldbindingar sínar og umfang lausafjár í hagkerfinu.  Ef dregur úr greiðsluhraðan eru það gjarnan merki um að fjárhagsstaða einstaklinga og fyrirtækja fari versnandi.

Í neðangreindu grafi má sjá þróun 12 mánaða greiðsluhraða byggða á gögnum Inkasso-Momentum. 12 mánaða greiðsluhraði er sá fjöldi krafna s.l. 12 mánuði sem greiddist fyrir eða á eindaga og hér setjum við fram þá breytingu sem orðið hefur frá mánuði til mánaðar.  

Eftir stöðuga og mjög jákvæða þróun greiðsluhraða frá því í faraldrinum byrjaði að draga úr greiðsluhraða í lok síðasta árs og hefur sú þróun haldist áfram á þessu ári. Það er þó jákvætt að hægt hefur á þessari þróun og nánast engin breyting varð á 12 mánaða greiðsluhraða milli s.l. nóvember og desember. Nú er bara að sjá hvort þessi þróun haldi áfram og greiðsluhraði batni.

Ýmsar ástæður geta verið fyrir breytingum á greiðsluhraða. Minnkandi umsvif í faraldrinum höfðu mikil jákvæð áhrif en hækkandi verðbólga og vextir á síðasta ári hafa gagnstæð áhrif.

Það er áhugavert að horfa á þessar tölur í samhengi við raunbreytingu á kortaveltu innlendra greiðslukorta milli ára en samdráttur í kortaveltu hefur fylgt neikvæðri þróun í greiðsluhraða.

Hafa skal í huga að þó þarna sé möguleg fylgni þá er ekki endilega orsakasamhengi þarna á milli.

Frá árinu 2019 má sjá að allt fram til ársins 2021 var þróun greiðsluhraða krafna neikvæður. Þ.e. fjöldi þeirra krafna sem greiddar voru eftir eindaga fór fjölgandi. Árið 2021 jókst greiðsluhraðinn (þ.e. hlutfallslega fleiri kröfur voru greiddar nærri eindaga) jafnt og þétt allt fram á mitt ár 2022. Frá miðju ári 2022 hefur greiðsluhraði farið minnkandi en hægt hefur mjög á þessari þróun síðari hluta ársins 2023 og við ársbyrjun 2024 virðist jafnvægi vera að nást á þróun greiðsluhraða.  

Það er áhugavert að skoða mun á breytingu á greiðsluhraða milli einstaklinga og fyrirtækja.  Sveiflurnar eru meiri hjá einstaklingum sem gefur vísbendingu um að áhrif verðbólgu og vaxtahækkana séu meiri og hafi meiri áhrif þegar kemur að einstaklingum. Þetta gæti gefið tilefni til  að huga þurfi betur að hagsmunum heimilanna í glímunni við verðbólguna. Fyrirtækin eru með minni sveiflur þó greina megi áþekka þróun hjá þeim og einstaklingum.